Hjalti Freyr Kristinsson
dáleiðslutæknir (Dip.CH.), markþjálfari (vinn að ACC gráðu ICF), heilsunuddari, kerfisfræðingur og leiðbeinandi.

„Ég hef lengi lagt stund á hugleiðslu og ýmsar aðferðir til að auka næmni, skynjun og ýmis konar sjálfseflingu. Ég byrjaði að kenna hugleiðslu árið 2003 eftir að hafa lært og stundað Silva Ultramind fræðin, en hef svo í kjölfarið ástundað og tileinkað mér aðferðafræðina sem kennd er hjá Higher Balance Institute og fundið farveg fyrir það inn í áframhaldandi kennslu, leiðbeinslu og í mínu eigin ferðalagi í vakningu sjálfsvitundar. Með nánari lærdóm í dáleiðslu aðhylltist ég mjög aðferðir til að tengjast innra sjálfi og þá sérstaklega QHHT aðferðina.  Til að setja svo punktinn yfir i-ið, þá er ég í yfirstandandi markþjálfunar-námi skv. ICF vottunarkerfinu og vinn nú að því að klára ACC gráðuna.

 

Heilsunudd / heildræn meðferð

Ég útskrifaðist sem heilsunuddari frá Nuddskóla Íslands 2001 og hef síðan þá starfað við heilsunudd, með áherslu á heildræna meðferð, slökun & heilun. Jafnt og þétt hef ég þróað mína eigin heildrænu tækni, út frá því sem mitt áhugasvið liggur að miklu leyti í, sem byggist á að búa til aðstæður fyrir skjólstæðinga mína til að komast í djúpt slökunarástand og þannig áfram í sitt eigið innra ferðalag, virkja heilsueflingu og upplifa sjálfa/n sig á alveg nýjan hátt. Þetta er í raun sambland af heildrænu nuddi, djúpslökun, ljósflæðisheilun (ljósmiðlun), notkun orkupunkta, hugar- og hljóðflæði á alpha/theta tíðni.  Með því að framkalla viðeigandi ástand í hug og líkama skjólstæðingsins, þá eflist hann sjálfur í sínu eigin ferli að betri heilsu, hugarró og orkujafnvægi. Á meðan margir notast frekar við ‘no pain, no gain’ aðferðina, sem sannarlega virkar fyrir marga, þá vel ég að taka hinn pólinn á málið. Það er að sjálfsögðu ekki áhugi hjá öllum að fara þannig í málin en fyrir þá sem það passar, gæti ansi margt gerst. Reynsla og upplifun hvers og eins er einstök og persónuleg, og oftar en ekki kveiknar á nýju sviði hjá viðkomandi – að upplifa sinn eigin sannleik og vitund, sitt eigið sjálf. Nýr skilningur kveiknar út frá nýju sjónarhorni. Hugarró og rými skapast til að tengja saman punkta í nýju samhengi, og fá dýpri heildarmynd í sína eigin sjálfsvitund, í flæði með sína eigin æðra sjálfi, með æðri mætti.

Hugleiðsla

Silva slökunarhugleiðslan, sem er virkilega öflugur grunnur í slökunartækni sem allir geta lært og nýtt sér vel (bæði byrjendur og þaulæfðir), er í rauninni sjálfsdáleiðsluaðferð þar sem notandinn þjálfast með öruggum skrefum að komast í mjög jafnvægis-gefandi ástand. Þessi aðferð nýtist á mjög víðfeðman og margskonar hátt og hefur hjálpað fólki á marga vegu.  Ég hef boðið áhugasömum að sækja sér frítt hljóðskjal með þessari hugleiðslu, en einnig hef ég verið reglulega með námskeið í aðferðinni, ásamt fleiru.

QHHT dáleiðsla

Nýlega hef ég svo einnig bætt við dáleiðsluaðferðinni sem Dolores Cannon þróaði og nefnist Quantum Healing Hypnosis Technique. Í stuttu máli er þetta er sérstök dáleiðsluaðferð þar sem farið er í fyrri líf, og samtal við æðra sjálf, út frá lista af spurningum sem skjólstæðingur kemur með.  Upplifunin og upplýsingarnar sem koma fram eru oftast þess eðlis að það gefur betri og dýpri skilning á því er að gerast núna í þessu lífi og um leið einnig farvegur til betra sambands við sjálfa/n þig. Dolores var orðin sérstaklega eftirsóknarverð þar sem oftast átti sér stað mjög djúp heilun líka fyrir viðkomandi – ef viðkomandi var í raun tilbúinn til þess. Fjölmargar bækur hafa komið út frá Dolores sem eru í raun samantekt hennar á því sem komið hefur fram hjá skjólstæðingum hennar í gegnum tíðina (samtalið skrifað beint með leyfi viðkomandi) þar sem alveg ótrúlegustu hlutir eru að koma fram, fyrri tilvistarsvið fólks hér á jörðu og annars staðar, og alls konar einstakar lýsingar á ýmsum málefnum.

Nýr kafli

Hingað til hef ég að mestu sinnt þessum málum frekar ósýnilega en núna er kominn tími til að gera þetta á mun sýnilegri hátt og auðvelda áhugasömum leitina að því sem þessu tengist.

Minn helsti fókus er að auðvelda fólki í sínu eigin ferli þróunar og uppljómunar – að vakna til sinnar sönnu vitundar, og er því núna að bjóða upp á ýmsar leiðir til þess hér á vefnum.

Hver og einn þarf að finna hvaða leið hentar sér; meðferðaraðila, leiðbeinanda, aðferðafræði, fræðsluefni, æfingar og ástundun, sem mun að sjálfsögðu breytast og þróast eftir því hvaða skref eru tekin hverju sinni, á leiðinni í sjálfsræktar-ferðalaginu.

Mikilvægt er að hlusta á sitt eigið hjarta og treysta sínum æðri mætti.

Hlustaðu í kyrrð, upplifðu og finndu, og taktu skrefið sem er rétt fyrir þig.“